Sandárvirkjun I.
Árið 1928 fékk Héraðsskólinn að Laugarvatni leyfi til þess að byggja rafstöð í Sandá. Bjarni Runólfsson í Hólmi gerði athuganir á rennsli og fallhæð. Bjarni reisti 12 ha. stöð með einfaldri jarðstíflu og 30 metra löngum opnum tréstokki. Virkjunin var í rekstri til ársins 1945. Um virkjunina má m.a. lesa í ritinu ,,Héraðsskólinn á Laugarvatni – þrítugur“ eftir Bjarna Bjarnason skólameistara.
Sandárvirkjun II.
Byggð heimarafstöð í Eyvindartungu árið 1928. Var þá byggður opinn timburstokkur og vatni veitt eftir honum niður í hverfilhús úr timbri. Fallið var um 3 metrar og túrbínan sem enn er til, var frumstæð skrúfutúrbína. Virkjunin var í rekstri til ársins 1956.
Sandárvirkjun III.
Um 1945 var virkjun I stækkuð. Byggð var 30 metra löng steypt stífla og lögð 90 metra löng trépípa, um 0,8 m í þvermál og reist nýtt stöðvarhús neðar og norðan við ána rétt ofan ármóta við Djúpá. Keyptur var nýr rafall en notaður gamli hverfillinn (Francis) sem Bjarni í Hólmi hafði smíðað. Í árslok 1956 kom “Sogsrafmagnið” að Laugarvatni og keypti Teitur Eyjólfsson bóndi í Eyvindartungu þá rafstöðina og þjónaði hún Eyvindartungubænum allt þar til haustið 2002 þegar hún var stöðvuð vegna byggingar Sandárvirkjunar IV. Rafstöðin, sem keyrð var í tæp 60 ár, hlaut eðlilegt viðhald, timburstokkurinn var endurnýjaður að hluta árið 1982 og stöðvarhús endurbyggt. Ennþá er upphaflega túrbínan í stöðinni en rafallinn var endurnýjaður 1995. Stöðin er reyndar enn í góðu lagi þó svo að hún sé ekki keyrð vegna þess að vatnið sem áður fór í gegnum hana drífur nú virkjun IV.
Sandárvirkjun IV.
Var tekin í notkun í marsmánuði 2003 en stöðin var um 9 mánuði í byggingu. Virkjunin er búin þverstreymishverfli (e. Crossflow) frá framleiðandanum Wasserkraft-Volk í Þýskalandi (wkv-ag.com). Gamla stíflan var hækkuð um 3 metra, og lagður var nýr 360 metra timburstokkur sem er 1,1 m að þvermáli. Stokkurinn er úr sérsniðnu timbri frá verksmiðju Byko í Lettlandi. Stokkurinn er girtur með 1800 járngjörðum Ø16 mm. Stokkurinn er niðurgrafinn og þannig ekki lítt sýnilegur. Sandárvirkjun IV framleiðir allt að 250 kW.
Sandárvirkjun V.
Var tekin í notkun í byrjun árs 2005. Virkjunin er búin upprunalega hverflinum úr Þverárvirkjun við Steingrímsfjörð er endurnýjaður var hjá Héðni hf. Virkjunin var ný framkvæmd þar sem Sandá var stífluð um 1 km ofan við inntakslón virkjunar IV. Stíflan er jarðvegsstífla með steyptum þéttivegg en aðrennslispípur eru síðan úr stáli og plasti að stærð 0,8 m í þvermál. Sandárvirkjun V framleiðir allt að 380 kW.